Heilbrigðismál - Hefðir og nýir straumar


Er eilífðar-einstaklingurinn fæddur?

Meðal brýnustu og mest umtöluðu viðfangsefna samtímans eru heilbrigðismál.  Það er áhugavert að huga að því hvernig þessi geiri samfélagsins er að meðtaka og aðlaga sig að þeim straumum og drifkröftum sem munu breyta öllu starfsumhverfi í heilbrigðismálum í náinni framtíð. Yfirmaður framtíðarfræða hjá Google  telur þann einstakling fæddan, sem með stuðningi tækninnar geti mögulega lifað að eilífu.  Hvort sem við trúum á að það verði raunin, er nokkuð ljóst að við munum lifa lengur og takast á við þær samfélagslegu breytingar sem fylgja slíkri þróun.

Hefðin er rík

Verulegar þekkingaraukning og tækiframfarir hefur átt sér stað í heilbrigðisþjónustunni en samt er ljóst er að verulegt rými er til breytinga og umbóta í núverandi fyrirkomulagi, sjúklingum og starfsfólki til góðs. Áskoranir framtíðarinnar snúast ekki hvað síst um viðhorf og að brjótast undan ríkjandi hefðum. Hvernig mun  heilbrigðisþjónustan geta nýtt sér nýjungar á sviði hugbúnaðar- og upplýsingartækni t.d. með nýtingu snjalltækja eins og síma og spjaldtölva, mætt hækkandi lífaldri þjóðarinnar, viðhorfum til líffæragjafa og þáttum eins og líknandi meðferðum.

Stöðugt fjölgar þeim  sem kalla eftir heilsueflandi þjónustu, sem þjónar viðskiptavininum frekar en kerfinu eða einstaka starfsstéttum. Auknar kröfur á klæðskeratengda þjónustu til bættrar lýðheilsu, hvort um sé að ræða geðræna eða líkamslegra þátta.

Þrátt fyrir að heilbrigðisstarfsfólk sé allt af vilja gert til að skila góðu starfi, þá eru kröfur til þeirra vaxandi um breytingar til að geta veitt hraða, vandvirka og snurðulausa þjónustu. Hér er því nauðsynlegt að brjóta niður hefir og ryðja brautina fyrir nýrri hugsun.

Að huga að virði þjónustunnar

Virði er samsett orð og í heilbrigðisþjónustu er það annars vegar gagnvart notendum þjónustunnar, hvernig leyst er úr þeim þörfum sjúklingsins sem verið er að sinna og svo hins vegar gagnvart greiðslu fyrir þjónustuna og þann kostnað sem því fylgir. Að óbreyttu mun kostnaður við heilbrigðis- og lýðheilsumál aukast í framtíðinni. Til að nýta hann á sem hagkvæmastan hátt eru heilbrigðisstofnanir á heimsvísu í ríkari mæli að taka upp breytt viðhorf og vinnubrögð samhliða því að efla samstarf, samnýta aðstöðu og tækninýjungar. Virðisaukningin kemur ekki síst með nýjungum og hvernig þjónustan er veitt og því fellst stóra virðisspurningin í hvaða brautir við við viljum beina heilbrigðisþjónustu á. Viljum við t.d. sjá ört fjölgandi magaaðgerðir til megrunar frekar en að efla forvarnir?  Fjöldi slíkra spurningar liggja fyrir og þarfnast svars og mótaðrar stefnu.

Framtíðin er handan við hornið

Heilbrigðisstofnanir og fyrirtæki víðsvegar í heiminum eru í vaxandi mæli að nýta sér nýja möguleika í tæknilausnum. Gott íslenskt dæmi er fyrirtækið Nox Medical, sem starfar á sviði svefnrannsókna og fékk nýlega Útflutningsverðlaun forseta Íslands og var auk þess útnefnt frumkvöðlafyrirtæki ársins. Vörur fyrirtækisins byggja á því að safna gögnum og greina svefn, ásamt samþættingu tæknilausna á ýmsum sviðum og nánu samstarfi við innlendar sem erlendar heilbrigðisstofnanir.

Meðal drifkrafta sem munu valda verulegum breytingum á komandi árum á störfum  heilbrigðisþjónustunnar eru:

  • Breytt notkun samfélagsmiðla sem nýtist við miðlun upplýsinga og greiningu þeirra í tengslum við farandsjúkdóma. Eins munu samfélagsmiðlar nýtast til miðlunar upplýsinga til sjúklinga og eftirlits með þeim..
  • Aukið aðgengi að hverskyns tækni og snjalltækjavæðingu sem gefur möguleika á sjálfvirku eftirliti og nýtist við skráningu upplýsinga svo sem blóðþrýstingi, hjartaslætti, svefnhegðun og öðrum persónulegum einkennum.
  • Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, auknar kröfur, þekking og aðgengi að upplýsingum eins og með „Google-væðingu“ notenda.
  • Áhrif tækninýjunga svo sem á sviði örtækni og líftækni í tengslum við skurðaðgerðir, líffæraflutninga eða framleiðslu líffæra frá þrívíddaprenturum.
  • Breytt viðhorf og nýjungar á svið stjórnunar og reksturs. Viðskiptalíkön fyrirtækja og stofnana eru að taka breytingum og munu gera það í ríkari mæli en áður hefur þekkst. Hvernig verða tekju- og þjónustulíkön gervilimafyrirtækja í framtíðinni við tilkomu framleiðslu líffæra í þrívíddaprenturum?

Hvort sem við trúum á eilíft líf eða ekki, þurfum við að vera vakandi fyrir þáttum sem geta bætt lífsgæði okkar og þar eru heilbrigðismálin ofarlega á blaði. Til að mæta áskorunum framtíðar þarf stöðugt að vera vakandi fyrir breytingum eða jafnvel heildaruppstokkun á núverandi kerfi. 

Höfundar eru Sævar Kristinsson, ráðgjafi hjá KPMG og Karl Friðriksson, starfsmaður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og stjórnarformaður setursins.