Ráðherra framtíðarmála?


Starfsumhverfi okkar breytist stöðugt.  Við lifum í heimi þar sem ákvarðanir stjórnvalda krefjast víðtæks skilnings á flóknum aðstæðum.  Því hefur sú hugmynd orðið æ áleitnari víða um heim að undanförnu, hvort þjóðir heims þurfi að hafa sérstakan ráðherra um framtíðarmálefni.  Var þessari hugmynd m.a. velt upp á fundi Alþjóða efnahagsráðsins (World Economic Forum) í Davos í janúar sl.

Svíar hafa haft ráðherra framtíðarmála um nokkurt skeið og er hlutverk hans að tryggja langtímahugsun stjórnvalda.  Sömu sögu má segja um fjarlægari  þjóðir eins og Saudi Arabíu, Suður Kóreu o.fl. 

Eitt af vandamálunum við nútíma stjórnmál er að þau snúast gjarnan um verkefni líðandi stundar og sjóndeildarhringurinn nær oftar en ekki nema út kjörtímabilið.  Nauðsynleg langtímahugsun og skipulag ná þannig ekki fótfestu. Finnsk stjórnvöld  hafa tekið á þessu með að láta útbúa framtíðarskýrslu á hverju kjörtímabili um þau meginviðfangsefni sem gætu mætt Finnum á komandi 15-25 árum.

Framtíðin er nær okkur en margir telja

Þættir sem í dag virðast fjarlægar hugmyndir munu raungerast á komandi árum (og hafa jafnvel gert það víða erlendis).  Gervigreind er nýtt á ótal sviðum, róbótar (vélmenni) munu vinna á heilbrigðisstofnunum og sjálfkeyrandi bílar eru handan við hornið. Stórvægilegar breytingar eru framundan í heilsufarsmálum og öldrun þjóðarinnar.  Bifreiðaeldsneyti er að þróast hratt frá hefðbundnu bensíni og olíu yfir í aðra orkugjafa eins og rafmagn og metan og ekki má gleyma áhrifum loftslagsbreytinga sem víða eru byrjuð að koma fram.

Það kannast eflaust margir við þessi hugtök en hvað eru stjórnvöld, stofnanir og fyrirtæki að gera til að efla umræðu um viðbrögð við þeim?  Það er nefnilega ekki nægjanlegt að kannast við þetta, heldur þarf að skilja hvernig þessi þróun geti orðið og ekki hvað síst að spyrja sig, hvernig munum við bregðast við breytingum, nýta tækifærin og bregðast við ógn og vá. 

Þarf Ísland að hafa ráðherra framtíðarmála?  Á tímum breytinga,  gagnast framtíðarfræðin vel þeim sem kunna að nýta þau.  Það er mikilvægt að stjórnvöld og ekki hvað síst ráðherrar séu framtíðarþenkjandi – helst allir.

Besta leiðin til að spá í framtíðina er nefnilega að skapa hana.

Höfundar eru Sævar Kristinsson, ráðgjafi hjá KPMG og Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og stjórnarformaður Framtíðarseturs Íslands.