Nútíðin er þunguð af framtíðinni

Að huga að framtíðum

Fyrsta sviðmyndaverkefnið var unnið hér á landi fyrir um tíu árum síðan. Í kjölfar þess gáfu undirritaðir, ásamt Eiríki Ingólfssyni, út bókina Framtíðin. Frá óvissu til árangurs. Notkun sviðsmynda (Scenarios) við stefnumótun. Fjöldi verkefna fyrir fyrirtæki og opinbera aðila hefur verið unninn síðan með þessari aðferðafræði. (

Á þessum tíu árum hefur áhugi á því að huga að framtíðarstraumum stóraukist. Hugtakið sviðsmyndir er orðið tungunni tamt en er stundum of- og misnotað.

Mótun sviðsmynda er verkferli, sem þarf faglegra stýringu frá upphafi til enda.

Þátttakendur við gerð sviðsmynda telja vinnuna hagnýta og skila góðum árangri við stefnumótun og auka víðsýni þeirra umfram margar aðrar aðferðir. Til að árangur náist þarf skýran tilgang með slíkri vinnu og markvissa innleiðingu á þeim niðurstöðum sem hún gefur af sér.

Nýr kafli þessara fræða er að mótast hér á landi. Háskólinn á Bifröst, KPMG og Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafa stofnað Framtíðarsetur Íslands, sem ætlað er að auka hagnýtingu þessara fræða. Fræðigreinin er vel þekkt erlendis og aðferðir hennar notaðar á sviði stefnumótunar, nýsköpunar og áhættugreiningar. Fyrirtæki og stofnanir, huga nú í auknum mæli að þeim áskorunum sem framtíðin ber í skauti sér út frá þessum fræðum. Við Íslendingar höfum verið minntir rækilega á það á undanförnum misserum að „framtíðin er ekki eins og hún var vön að vera“ og að „það gerist sem engum hafði dottið í hug“.  Horfa þarf á samfélagsþróun og breytingar út frá öðru sjónarhorni, því hefðbundin þróun þarf ekki að nýtast vel sem grunnur hugleiðinga til framtíðar.

„Nútíðin er þunguð af framtíðinni“

Góður maður sagði að „nútíðin væri þunguð af framtíðinni“. Þá framtíð getum við mótað, rétt eins og börnin okkar, með því að horfa skipulega fram á við, huga að þeim drifkröftum sem við búum við, kortleggja möguleikana og vera þannig eins vel undir framtíðina búin og kostur er.

Höfundar eru Sævar Kristinsson, ráðgjafi hjá KPMG og Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og stjórnarformaður Framtíðarseturs Íslands.