Auðlegð fólgin í fjöldanum

Auðlegð fólgin í fjöldanum – magnið skiptir máli

Ör tækniþróun skapar áhrifaríkar nýjungar á degi hverjum sem oft gera hefðbundnar vörur úreltar. Þetta á ekki síst við um afkastageta tölvubúnaðar sem hefur margfaldast á undanförnum árum. Þannig hefur myndast möguleiki á að safna og geyma ótrúlega mikið magn upplýsinga.  Þessi nýja tækni við að safna, greina og miðla miklu magni upplýsinga er á ensku nefnt „big data“. Hafa þessir möguleikar  þegar haft veruleg samfélagsleg áhrif og munu breyta viðhorfum til ólíkra þátta í þjóðfélaginu. Nánast ekkert er hér  undanskilið og liggja ótrúlegir framtíðarmöguleikar í nýtingu stórra gagnasafna.

Viska fjöldans í takt við framtíðina

Svokölluð „crowd sourcing“ aðferð, þar sem leitast er við að fá álit fleiri en færri, er nú í vaxandi mæli nýtt til að fá fram skoðanir fólks með nýtingu vefsins. Hugmyndin byggir á visku fjöldans.  Þessi aðferð er þekkt úr framtíðarfræðunum, svonefndri Delphi-aðferð, sem gengur út á að fá fram skoðanir fólks með sérþekkingu á tilteknu viðfangsefni. Með framangreindri tækniþróun er orðið mun auðveldara að nálgast notendur vara og þjónustu en áður.  Þessar breytingar munu hafa veruleg áhrif á stjórnun og rekstur fyrirtækja og þá ekki síst á sviði markaðsmála og eins við rannsókna- og þróunarstarf.  Sama aðferðafræði er nýtt í vaxandi mæli á fleiri sviðum við fjármögnun nýsköpunarhugmynda t.d. með nýtingu „Karolinafund“. 

Betur sjá augu en auga

Stafrænar lausnir hafa verið þróaðar til að nota aðferðirnar á mun viðtækari hátt þar sem hægt er að fá skoðanir sérfræðinga víðsvegar um heiminn á ýmsum álitamálum. Byggir slíkt á aukinni notkun vefsins og einkum snjallsíma og slíkra tækja. Ef ákveðinn fjöldi tekur afstöðu til ákveðins máls þá er líklegra en ekki að sú niðurstaða reynist réttari. Þannig er með auðveldum hætti hægt t.d. að minnka áhættu við ákvarðanatöku. 

Bæði fyrirtæki og stofnanir ættu að vera vakandi fyrir því að nýta sér „visku fjöldans“ með þessum hætti  því eins og gamalt íslenskt máltæki segir – „betur sjá augu en auga“.

Höfundar eru Sævar Kristinsson, ráðgjafi hjá KPMG og Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri við  Nýsköpunarmiðstöð Íslands og stjórnarformaður Framtíðarseturs Íslands.