Ögrandi Framtíðir með Jerome Glenn – Hvað er framundan og hverjar eru áskoranirnar

Dagana 10. og 11. júní næstkomandi mun Jerome Glenn heimsækja Ísland. Jerome Glenn er meðstofnandi og forstjóri Millennium Project sem er stærsti vettvangur framtíðarfræðinga á alþjóðavísu. Heimsókn Jerome Glenn er skipulögð af Framtíðarsetri Íslands, en setrið er formlegur aðili að samstarfsneti Millennium Project. 

Í heimsókn sinni mun Jerome eiga fundi með ýmsum aðilum hér á landi, svo sem framtíðarnefnd Alþingis, ráðuneytum og stofnunum. Hann mun halda morgunverðar fyrirlestur mánudaginn 10. júní kl. 9:00 í ráðstefnusal Arion banka, um ögrandi framtíðir og framtíðaráskoranir. Fyrirlesturinn er opinn öllu áhugafólki um stjórnun, samfélags- og framtíðarþróun. Viðburðurinn er skipulagður í samstarfi við Stjórnvísi og Ský. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðum þessara aðila. 

Jerome Glenn hefur áratuga reynslu af framtíðarrannsóknum. Hann hefur starfað fyrir stjórnvöld, alþjóðastofnanir og einkaaðila á sviði vísinda og tækni, umhverfis- og öryggismála, á sviði menntunar, varnarmála og geimferða. Hann hefur unnið að þróun aðferða á sviði framtíðarfræða, meðal annars í tengslum við aðila eins og Hudson Institute, Future Options Room og á vettvangi Millennium Project. Hann er vinsæll fyrirlesari víðsvegar um heiminn á vegum félagasamtaka, háskóla, fyrirtækja og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins.

Nýlegar rannsóknir hans fela í sér: Framþróun gervigreindar, mótun og umbætur á framsýni Sameinuðu þjóðanna og framtíðarvinnu/tækni 2050. Hann hefur unnið að þjálfun og mati í örfyrirtækjum og efnahagsþróun í Afríku, Miðausturlöndum, Asíu, Karíbahafi og Rómönsku Ameríku.

Hann hefur sýnt verulegan áhuga á þróun þjóða á stofnun framtíðarnefnda þjóðþinga. Ein af ástæðum heimsóknar hans er að ræða við nefndarmenn framtíðarnefndar Alþingis, um hlutverk og gagnsemi slíkra nefnda. Á leið sinni til landsins mun hann einnig heimsækja framtíðarnefnd finnska þingsins, en Finnar voru ein af fyrstu þjóðunum til að stofna slíka þingnefnd. Nokkur önnur ríki hafa bæst í hópinn og hefur Jerome verið ötull við að hvetja þjóðþing að feta í fótspor Finna og Íslendinga. Það mun auðvelda löggjafanum meðal annars að takast á við framtíðaráskoranir á mörgum sviðum en þó ekki síst á þessum tímamótum þegar móta þarf lög og reglur og siðferðismat vegna þróunar gervigreindar.