Innkaupahegðun breytist og nýrri tækni beitt

Á síðustu árum hefur þróun í verslun verið margvísleg en í megin atriðum hefur tvennt breyst. Aukin áhersla hefur verið á sjálfsafgreiðslu þar sem viðskiptavinurinn bæði tekur saman þær vörur sem hann vill kaupa, gengur frá greiðslu og sér um að taka þær með sér. Hitt er það að nýta netið til innkaupa þar sem varan er valin í netverslun, gengið er frá rafrænni greiðslu og hún afhent viðskiptavininum í kjölfarið. Í fyrra tilfellinu er kerfisbundið dregið úr þörf fyrir starfsfólk og vinnan færist yfir á viðskiptavininn sem ætti að leiða til lægra vöruverðs á sama tíma og möguleiki er til að halda úti verslunum á afskekktum stöðum þannig að af þessu hlýst margvíslegur ávinningur á sama tíma og þörfin fyrir starfsfólk minnkar. Netverslunin býður aftur uppá stærðarhagkvæmni þar sem hægt er að þjónusta allan heiminn út frá einni verslun og hægt að stunda viðskipti allan sólarhringinn. Stærðarhagkvæmni sem ætti að leiða til lægra vöruverðs og aukins úrvals. Biðin frá því að vara er keypt og þar til hún er afhent er nokkur, en á móti kemur minnkar fyrirhöfn viðskiptavinarins við innkaupin enda fara þau fram heima í sófa.

Þessi þróun hefur verið hröð síðustu misserin og spurning hvort hefðbundnar verslanir og verslanamiðstöðvar gefi eftir í núverandi mynd en teikn eru á lofti. Á sama tíma hefur t.d. rafræn mátunartækni komið fram og um nokkurt skeið hefur aðgengi að vöruupplýsingum verið gott á internetinu. Tæknin auðveldar alla ákvarðanatöku og frágang kaupa. Þó tæknin sé til staðar er ekki sjálfgefið að beiting hennar taki yfir. Stundum gleymast félagslegir þættir. Félagslegt mikilvægi verslanamiðstöðva skal ekki vanmetið, sérstaklega þegar fólk í auknum mæli vinnur heiman frá sér og sinnir annars viðfangsefnum í gegnum tölvu sem áður innihéldu samskipti við annað fólk. Bara það að komast út á meðal fólks er mikilvægt og verslunarmiðstöðvar eru þekktur vettvangur.

Það er alveg ljóst að margt er að breytast en það verður líka að horfa til fleiri þátta en bara tækniframfara þegar mat er lagt á hvernig málum verður háttað að 10-15 árum liðnum.

Sjá nánar umfjöllun Kjarnans um sjálfsafgreiðslu
Sjá nánar umfjöllun Vísis um sjálfsafgreiðslu á afskekktum stöðum
Sjá nánar umfjöllun um framtíð verslananamiðstöðva
Sjá nánar kynningu á rafrænni mátun